SVIMI OG JAFNVÆGISSKORTUR

 
Svimi og jafnvægisskortur.jpg

Af hverju kemur svimi og jafnvægisskortur eftir heilahristing?

Svimi og ójafnvægi er mjög algeng kvörtun eftir heilahristing og það er fjöldi ástæðna fyrir þessum einkennum. Tvísýni, áverki á stöðvar heilastofnsins sem hafa umsjón með jafnvægi, eða áverki á ákveðin svæði í litla heila getur valdið svima eða tilfinningu um jafnvægisleysi. Flökt á blóðþrýstingi, af völdum truflunar á taugaboðum sem stjórna hjartsláttartíðni eða áverka
á þeim hluta heilans sem viðheldur og stjórnar blóðflæði, getur einnig orsakað einkenni eins og svima og jafnvægisleysi. Langvarandi notkun hálskraga getur leitt til samþjöppunar á taugum sem leiða í bakhlið
höfuðsins sem eykur svima. Svimi stafar venjulega af meiðslum á bogagöngum í innra eyra.

Ef sviminn er stöðugur gæti verið gott að láta athuga hvort að kristallar
í innra eyra hafi farið á hreyfingu. Ef það reynist vera tilfellið eru nokkrar sérhæfðar æfingar sem geta leyst það vandamál. Læknir getur gefið manni blað þar sem sýndar eru æfingar til að koma kristöllunum aftur á sinn stað. Stundum tekst það strax í fyrsta skiptið en stundum þarf maður að gera æfingarnar í nokkra daga. Sigurður Stefánsson læknir á Handlæknastöðinni
í Glæsibæ sérhæfir sig í svima og það er oftast hægt að fá tíma með frekar skömmum fyrirvara.

 

Hagnýt ráð
og tillögur

Þó það sé alltaf best að leita til læknis og sérfræðinga með einkenni sem eru jafn vandasöm og svimi og jafnvægisleysi, þá er hægt að gera margt heima og í vinnunni til að minnka svimaköstin eða fá vægari köst. Eftirfarandi eru tillögur sem geta hjálpað:

  • Vertu duglegur að drekka yfir daginn.

  •  Við fyrstu merki um svima er gott að hætta að hreyfa sig, setjast eða leggjast niður. Í flestum tilfellum hjálpar það við að stoppa svimatilfinninguna innan fárra mínútna

  • Reyndu að standa eða setjast ekki hratt upp á morgnana, taktu þinn tíma með því að setjast til
    á rúmstokkinn og bíða þar a.m.k. í stutta stund, áður en þú stendur upp og ferð á fætur.

  • Skrifaðu niður hjá þér hvort sviminn og ójafnvægið sé verra á ákveðnum tíma dags, þegar þú ert svöng, þegar þú ert í miklum hita, í mikilli birtu eða í miklum hávaða. Ef eitthvað af þessu á við, skaltu reyna að forðast þær aðstæður eða a.m.k. setja þig sjaldnar í þær aðstæður.

  • Reyndu að sofa á sérstökum kodda sem er aðlagaður að hálsinum og gerir höfðinu kleift að vera beint ofan við líkamann þannig að það sé einungis hálsinn sem er í beygju. Það er einnig hægt að rúlla upp handklæði eða þunnu teppi og setja undir hálsinn til stuðnings.

  • Ef læknir ráðleggur að notast við hálskraga getur hann létt á þrýstingi á taugum í hálsinum fyrst eftir slys en til lengdar getur það leitt til þjöppunar á þeim taugum. Sjúkraþjálfari getur einnig notast við mjúka og stutta hálskraga til að hjálpa til við að létta á svima ef upptökin tengjast hálssvæðinu. Í langflestum tilfellum er ekki ráðlagt að nota kraga út af m.a. rýrnunaráhrifum á hálsvöðvunum.

  • Hafðu í huga að lyf eins og getnaðarvarnarpillur og blóðþrýstingslyf geta haft svima sem aukaverkun. Sumir einstaklingar eru reyndar næmari fyrir lyfjum og geta jafnvel fundið fyrir svima við að taka aspirín. Hafðu það einnig á bakvið eyrað að heilahristingurinn getur gert þig næmari fyrir aukaverkunum lyfja en þú hefur áður verið.

  •  Reyndu eins og þú getur að forðast áfengi, sígarettur og vímuefni þar sem þau stuðla að svimaeinkennum.

  • Takmarkaðu notkun þína á salti, sem getur valdið uppsöfnun vökva og auknum svima.

 

HEIMILDASKRÁ

Stoler, D. R., & Hill, B. A. (2013). Coping with concussion and mild traumatic brain injury: a guide to living with the challenges associated with post concussion syndrome and brain trauma. New York: Avery.