GRENSÁSDEILD LANDSPÍTALA OG REYKJALUNDUR

 
Vöðva og hreyfivandamál.jpg

Þverfagleg heilaskaðateymi sem sinna greiningu og endur-hæfingu fólks sem hlýtur áverkatengdan heilaskaða eru á Grensásdeild Landspítala og á taugasviði Reykjalundar. Bæði þessi teymi sinna einkum fólki frá 18 ára aldri þótt dæmi séu um undantekningar varðandi aldur. Góð greining á ástandi og getu sjúklings er undirstaða meðferðarinnar. Stundum nægir greining, meðferðaráætlun, ráðleggingar og eftirlit á göngudeild. Í öðrum tilvikum er gert ítarlegt, fjölþætt heilaskaðamat sem er unnið
af teyminu. Niðurstöður þess mats eru notaðar til að leggja upp með meðferðaráætlun í formi ráðlegginga og/eða meðferðar
á dagdeild.

grensásdeild landspítala

Heilaskaðateymi hefur verið starfrækt á Grensásdeild LSH í 15 ár og hefur starfsemi þess verið í stöðugri þróun og vaxið hratt að undanförnu. Árið 2018 var 50 einstaklingum vísað til teymisins. Stærsti hluti þeirra var með heilahristing en nákvæm skipting
varðandi það um hvers konar skaða er að ræða er ekki til staðar. Meðferðartími á dagdeild er breytilegur, oftast 4–8 vikur, 3–5 daga
í viku. Einstaklingar með alvarlega heilaáverka geta þurft innlögn á sólarhringsdeild á Grensási til að byrja með. Á Grensásdeildinni
er eftirfylgni með viðtali í allt að tvö ár eftir að meðferð þar lýkur.

reykjalundur

Heilaskaðateymi Reykjalundar var stofnað formlega árið 2006 en hafði sinnt heilaskaðaendurhæfingu nokkur ár á undan. Árið 2018 sinnti heilaskaðateymi Reykjalundar um 15–20 manns með áverkatengdan heilaskaða.

Starfsemin fer yfirleitt fram á dagdeild, svokölluð ferliþjónusta, þótt einnig sé þar boðið upp á sólarhringsvist í sérstökum tilfellum. Einnig er göngudeildarþjónusta fyrir sjúklinga fyrir og eftir innlögn. Sjúklingar koma ýmist í framhaldi af endurhæfingu á Grensásdeild eða eftir tilvísun frá læknum annarra deilda spítalans eða utan hans. Flestar beiðnir koma frá heilsugæslunni en einnig koma beiðnir frá VIRK starfsendurhæfingarsjóði og af geðsviði og taugadeildum Landspítala. Stundum er um frumgreiningu og meðferð að ræða, jafnvel nokkuð löngu eftir skaða, en einnig getur greining legið fyrir og fyrst og fremst verið þörf á endurhæfingu. Taugateymi Reykjalundar hefur einnig í sumum tilfellum samvinnu við önnur svið Reykjalundar varðandi endurhæfingu fólks með heilaskaða, einna helst starfsendurhæfingarsvið og geðsvið.

Á árunum 2004–2011 var staðið fyrir tilraunaverkefni á Reykjalundi sem fólst í því að gera endurhæfingu fólks með heilaskaða mark-vissari og árangursríkari, meðal annars með hópmeðferð og langtímaeftirfylgni á göngudeild. Það verkefni fékk á árunum 2009–2011 sérstaka fjárveitingu á fjárlögum. Undanfarin tvö ár hefur þróun hópmeðferðar vegna heilaskaða verið endurvakin á Reykjalundi þótt
í litlum mæli sé, enn sem komið er. Hópendurhæfing fólks með heilaskaða er alþekkt endurhæfingarform erlendis en slík úrræði eru mjög takmörkuð hér á landi.

 

Heimildaskrá

Heilbrigðisráðuneytið. (2019, júní). Hinn þögli faraldur: Þjónusta við fólk með ákominn heilaskaða. Sótt 15. nóvember 2019 af https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=cc561169-86e5-11e9-943f-005056bc530c