MINNISERFIÐLEIKAR

 
Minniserfiðleikar.jpg

Hæfni til að geyma og muna upplýsingar er eitt af megin viðmiðunum til að ákvarða alvarleika heilaskaða. Minniserfiðleikar eru algengastir og mest viðvarandi allra taugafræðilegra afleiðinga eftirheilahristingsheilkennis en einkenni geta verið breytileg
á milli einstaklinga. Minniserfiðleikar sem stafa af heilahristingi eru ekki bara einföld gleymska. Minniserfiðleikar geta falið í sér skerta getu til að rifja upp atburði eða taka inn nýjar upplýsingar og hugmyndir. Það eru stórir þættir sem spila inn í hæfni þína til að muna hluti eins og athygli, skipulag, hvatning, þreyta og úthaldsleysi sem getur allt orðið fyrir einhvers konar breytingum eftir höfuðáverka.

 

Af hverju minniserfiðleikar geta átt sér stað eftir heilahristing

Minni er ótrúlega flókið fyrirbæri. Minnið er í raun fjöldi tengdra neta til að taka inn, geyma og endurkalla síðan upplýsingarnar. Þetta kerfi gerir þér kleift að geyma og rifja upp einfaldar skynjunarupplýsingar auk flókinnar þekkingar og persónulegrar reynslu. Skemmdir á einhverjum hluta þessa flókna kerfis geta truflað getu þína til að flokka, tengja og rifja upp nýlegar hugsanir og reynslu. Aftur á móti ef þú ert ófær um að muna upplýsingar getur orðið mjög erfitt að móta nýjar hugmyndir eða jafnvel að bregðast við gömlum.

 

Hagnýt ráð
og tillögur

 

Það krefst gríðarlegar orku að hugsa skýrt. Hugsun og einbeiting til lengri tíma getur valdið andlegri þreytu við bestu kringumstæður og mun að öllum líkindum gera það
í kjölfar heilahristings. Oft myndast vítahringur þegar þú átt í erfiðleikum með að muna eitthvað. Þegar þú uppgötvar að þú getur ekki munað, hvað sem þú reynir, þá verður þú meira örmagna en áður. Það er mikilvægt að hafa nýjar takmarkanir í huga, en jafn mikilvægt að láta einkennin ekki sigra þig. Eftirfarandi eru nokkrar aðferðir sem geta hjálpað þér að skrá, geyma og muna upplýsingar á skilvirkari hátt:

  • Takmarkaðu áfengisneyslu því drykkja getur haft bein áhrif á minni og vitsmuni. 

  • Þú getur spurt lækninn þinn hvort eitthvert af lyfjunum sem þú ert að taka sé með þá aukaverkun að hafa áhrif á minni. Ef svo reynist vera, getur þú rætt hvort að það sé hægt að breyta um lyf til að ganga úr skugga um hvort breyting á lyfi feli í sér bætingu í minni

  • Hættu að reykja

  • Takmarkaðu koffínneyslu þína, hvort sem það er í gosdrykkjum, kaffi eða öðrum drykkjum. Dökkt súkkulaði getur verið undantekningin, en því hærri prósenta sem súkkulaðið er því betra

  • Hafðu klukkur og dagatal sýnileg um húsið, þá sérstaklega í svefnherbergi og vinnuherbergi.

  • Skrifaðu hluti sem þú þarft að muna á „post it“ miða eða í litla bók. Þetta geta verið hlutir sem þú þarft að klára, símtöl sem þurfa að eiga sér stað, atriði sem tengjast vinnu eða hvað annað sem þú þarft að muna.

  • Ímyndaðu þér vel umhverfið í kringum stað sem þú ert að fara á og hvaða leið maður kemst þangað áður en þú leggur af stað.

  • Lokaðu augunum þegar þú leggur hluti frá þér, t.d. bíllyklana og myndaðu í huga þínum hvar þú hefur staðsett hlutinn. Þú getur einnig reynt að tala upphátt og segja við þig t.d. “Ég er að leggja lyklana á borðið” og það getur hjálpað þér við að kalla fram hvar lyklarnir eru staðsettir.

  • Æfðu þig í að klára hluti áður en þú byrjar að gera nýja. Með því þarftu ekki að muna hvar þú stoppaðir í fyrra verkefninu. Ef þú getur ekki gert einn hlut í einu þá getur þú skrifað niður á miða hvar þú stoppaðir.

  • Þú getur spilað spil eins og Concentration, Memory. Þessir minnisleikir þjálfa einbeitingu, athygli og endurkalla minni.

  • Þú getur fundið fullt að minnisæfingum á netinu og í símanum. Dæmi um frábær öpp eru Lumosity og Peak.

  • Gerðu tilraunir á því hvort sjónræna minnið sé sterkara en skammtímaminnið eða öfugt. Út frá þeirri niðurstöðu getur þú betur nýtt styrkleika þína í því minni sem
    þú ert betri í, til að styrkja minnið sem er veikara.

  • Hægt er að hengja minnismiða t.d. á ísskápinn til að muna að slökkva á samlokugrillinu eða setja minnismiða t.d. á baðherbergisspegilinn til að muna eftir því að tannbursta sig.

  • Settu upp vekjaraklukkur á þeim tíma dags sem þú vilt minna þig á eitthvað. Ef þú átt til dæmis að taka lyf á ákveðnum tíma dags, þá er hægt að stilla vekjaraklukku til að þú gleymir ekki að taka þau.

 

HEIMILDASKRÁ

Stoler, D. R., & Hill, B. A. (2013). Coping with concussion and mild traumatic brain injury: a guide to living with the challenges associated with post concussion syndrome and brain trauma. New York: Avery.