HVAÐ ER HÆGT AÐ KANNA?

 
Hvað er hægt að kanna.jpg

Það eru margir hlutir sem geta orðið fyrir breytingum/skaða eftir heilaáverka eða hálshnykk. Eftirfarandi atriði eru hlutir sem hægt er að kanna í samráði við þinn lækni:

  • sjón

    • Það er ekki óalgengt að sjón eftir heilaáverka geti breyst. Ef þú tekur sjálf/ur eftir erfiðleikum með sjónhreyfingar, átt erfitt með að fylgjast með hlutum á hreyfingu, ert í erfiðleikum með að horfa á eitthvað þar sem ótrúlega margt er að gerast (t.d. umferð), átt erfitt með að stilla fókus o.s.frv. þá er fyrsta skrefið að láta lækni tékka á augnhreyfingum. Í framhaldinu getur þú líka farið til augnlæknis og kannað með sjónbreytingar og kannað hvort gleraugu geti hjálpað eitthvað. Það varð mjög mikil breyting hjá mér þegar ég komst að því að hægt er að fara í sérstaka sjónþjálfun, sem getur reynst mjög hjálpleg fyrir þá einstaklinga sem hennar þurfa með.

  • jafnvægi

    • Jafnvægisskynið getur líkað raskast og þá er nauðsynlegt að þjálfa það upp aftur með margs konar æfingum. Ég hélt að jafnvægið mitt væri í lagi þegar sjúkraþjálfarinn minn fór að spyrja mig út í það sex mánuðum eftir slysið. Þegar hún lét mig prófa nokkrar mjög einfaldar æfingar komst ég að því að jafnvægið mitt var fjarri því að vera í lagi. Því hef ég verið að gera æfingar sem sjúkraþjálfarinn minn setur mér fyrir og eykur erfiðleikastigið á þeim með tímanum, eftir því hvernig mér gengur að framkvæma þær. Því myndi ég í ykkar sporum láta sjúkraþjálfarann ykkar athuga hvort jafnvægið ykkar hafi eitthvað raskast eftir heilahristinginn og þá fá æfingar í samræmi við getu þínu tengt því
      og svo þyngja smá saman.

  • hormónatruflanir

    • Helga Ágústa Sigurjónsdóttir prófessor í lyf- og innkirtlalækningum, og Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen deildarlæknir
      á Landspítalanum eru hluti af starfsliði sem hafa staðið fyrir umfangsmikilli rannsókn sem kannar áhrif heilahristings á hormónastarfsemi íþróttamanna. Eldri rannsóknir sýna að í kringum tuttugu prósent þeirra sem hljóta alvarlega höfuðáverka eða hálshnykki reynast hafa bilun á heiladingulsstarfsemi.

    • Heiladingullinn er yfirkirtill líkamans og stjórnar framleiðslu margra hormóna í líkamanum og hversu mikið af hormónum margir kirtlar framleiða. Hormón er boðefni sem myndast í innkirtlum og berast með blóði um allan líkamann og kalla fram einhvers konar áhrif og hver þeirra hefur sérstakt hlutverk.

    • Heiladingulsbilun getur haft áhrif á hormón eins og t.d. vaxtarhormón. Til að skoða hvort um eiginlegan hormónaskort sé að ræða þarf að taka hormónamælingar. Það er ekki hægt að greina hormónaskaða vegna heiladingulsbilunar eftir höfuðhögg með viðtölum eða líkamsskoðunum. Ef í ljós kemur að um heiladingulsbilun er að ræða er meðferð til þess að leysa úr vandanum.

    • Það er gott að láta athuga hvort hormónastarfsemi þín hafi eitthvað raskast eftir heilahristinginn bæði til að geta útilokað hluti og eins ef það virðist vera röskun á hormónum er meðferð til þess að leysa úr því. Aftur á móti er best að gera þetta í samráði við þinn lækni.

  • aukinn púls þegar þú ert að hreyfa þig

    • Það er ekki óalgengt eftir höfuðáverka að púlsinn hjá einstaklingnum rýkur upp eftir litla áreynslu, jafnvel bara við það
      að standa upp eftir langa setu. Því getur reynst erfiðara að búa til æfingaplan fyrir þá sem hafa hlotið höfuðáverka. Sjúkraþjálfarar þurfa að meta við hvaða púls einstaklingurinn nær að halda einkennum sínum í skefjum og reyna að æfa ýmsar æfingar eins og göngu, hjól og sund á þeim púlsi í ákveðinn tíma. Sjúkraþjálfarinn sér síðan einnig um að skoða árangur og bæta við erfiðleikastig á þeim æfingum sem hann setur þér fyrir, hann metur út frá púlsinum og einkennum einstaklingsins hvort hægt sé að þyngja og láta hann æfa við hærri púls. Það getur verið hættulegt að setja of erfiðar æfingar fyrir fólk sem hefur hlotið höfuðáverka. Einkennin geta til dæmis verið svimi og jafnvægisskortur, sem getur aukið hættuna á falli sem getur leitt til þess að einstaklingurinn fái annað högg sem getur haft mjög slæmar afleiðingar.

Ef þú ferð síðan í endurhæfingu á Grensás og kemst í skoðun hjá heilaskaðateyminu eru könnuð fleiri atriði, svo sem:

  • taugasálfræðilegt mat

    • Taugasálfræðilegt mat byggir á líffræðilegum grunni, stöðluðum prófum og tölfræðilegum útreikningum sem gefur ítarlega mynd af vitsmunalegri getu og röskun, og eykur skilning og faglega þekkingu okkar á breytingum sem eiga sér stað við heilaskaða. Matið kortleggur þau svið heilans sem hafa orðið fyrir röskun, aðstoðar við að þekkja takmarkanir og styrkleika. Út frá þeim styrkleikum sem mælast er hægt að læra ýmiss konar æfingar og heimaverkefni sem hjálpa til við að vega veikleika upp. 

  • samhæfing og fíngerðar hreyfingar

    • Bæði fíngerð og gróf hreyfifærni getur skerst eftir heilahristing, ásamt því sem einstaklingurinn á oft í erfiðleikum með jafnvægi, samhæfingu hreyfinga og getu til að framkvæma tæknilegar hreyfingar. Aftur á móti er stundum möguleiki á að þjálfa þetta upp með ákveðnum æfingum.

  • hvort þörf sé á aðstoð hjá iðjuþjálfa

    • Ef einstaklingur með heilaáverka á í erfiðleikum með að takast á við sitt daglega líf, á erfitt með hluti sem áður voru einfaldir eins og að elda mat, vinna vinnuna sína, stunda áhugamál og keyra bíl, gæti iðjuþjálfun gagnast honum. Sérþekking iðjuþjálfa felst í því greina styrkleika einstaklinga og hvað reynist þeim erfitt við dagleg verk, finna leiðir til að yfirstíga þessa erfiðleika og þjálfa aftur upp færni til að takast á við daglegt líf.

  • hvort þörf sé á aðstoð hjá talmeinafræðingi

    • Ef einstaklingur með heilaáverka er með vandamál sem varða mál, tal eða kynginu getur verið nauðsynlegt og mjög gagnlegt að fara til talmeinafræðings. Talmeinafræðingar eru með sérmenntun í að greina og meðhöndla talgalla og máltap/málstol. Þeir sinna einnig einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með að tyggja eða kyngja.

HEIMILDASKRÁ

Bergljót Baldursdóttir. (2018, 20. júní). Heilahristingur getur valdið hormónatruflunum. Sótt 14. nóvember 2019 af https://www.ruv.is/frett/heilahristingur-getur-valdid-hormonatruflunum

Claudia Ósk Hoeltje Georgsdóttir. (e.d.). Taugasálfræðileg endurhæfing. Sótt 14. nóvember 2019 af https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/Sjuklingar-og-adstandendur/Sjuklingafraedsla---Upplysingarit/Salfraedi/taugasalfraedileg_endurhaefing.pdf

Claudia Ósk Hoeltje Georgsdóttir. (e.d.). Taugasálfræðilegt mat. Sótt 14. nóvember 2019 af https://claudiaosk.wordpress.com/%C3%BEjonusta/taugasalfr%C3%A6%C3%B0ilegt-mat/

Esterov, D. og Greenwald, B. D. (2017). Autonomic Dysfunction after Mild Traumatic Brain Injury. Brain Sciences, 7 (8), 100. doi: 10.3390/brainsci7080100

Landspítali Grensási. (e.d.). Fagstéttir. Sótt 13. nóvember 2019 af https://www.landspitali.is/grensasdeild/forsida/um-deildina/fagstettir/

Mader, S. S. og Windelspecht, M. (2015). Inquiry Into Life (15. útg.) New York, NY: McGraw-Hill Education.

Yashar Neurosurgery. (e.d.). Long Term Effects of a Concussion. Sótt 14. nóvember 2019 af https://www.yasharneurosurgery.com/long-term-effects-concussion/

Þórunn Kristjánsdóttir. (2017, 10. nóvember). Rannsaka áhrif höfuðhöggs á íþróttakonur. Sótt 14. nóvember 2019 af https://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/11/10/rannsaka_ahrif_hofudhoggs_a_ithrottakonur/