MARKMIÐSSETNING

 
Markmiðssetning.jpg

Fyrir þá sem eru ekki vanir að setja sér markmið þá mæli
ég eindregið með því að taka það upp. Það hjálpar mér ekki einungis við það að sjá muninn á markmiðunum mínum fyrir
t.d. 3 mánuðum, heldur hjálpar það einnig við að setja sér lítil raunhæf markmið eða skref í staðinn fyrir að bera alla flokka saman við sama lokamarkmiðið sem er að ná fullum bata. Ég var mikið í því fyrir slysið mitt að setja mér markmið, ég gerði alltaf viku-, mánaðar-, og ársmarkmið og fannst gott að skrifa þetta niður og setja á sýnilegan stað þannig að ég myndi nú standa við markmiðin mín. Aftur á móti eftir slysið mitt þá fannst mér ég missa alla skipulagshæfni mína og fannst ótrúlega erfitt að skipuleggja hluti, fara að setja mér markmið og hafði enga ánægju af því að gera það lengur. Ég ákvað eitt kvöldið að panta nokkrar bækur um eftirheilahristingsheilkenni og keypti mér meðal annars bók sem heitir „The Mild Traumatic Brain Injury Workbook“ á Amazon. Ég byrjaði síðan hægt og rólega á þessari vinnubók og einn kaflinn þar var sérstaklega um það að setja sér markmið. Ég ákvað þá að vera þrjósk við sjálfa mig og reyna í smáum skrefum að byrja að setja mér markmið.

Það fyrsta sem ég byrjaði á að gera var að skipta markmiðunum mínum niður í flokka. Mínir flokkar skiptast í: jafnvægi, sjón-þjálfun, félagsleg samskipti, áreiti, heilaæfingar og hreyfing. Ég
er sjálf í sérstakri sjónþjálfun því ég hef átt í ótrúlega miklum erfiðleikum með allar augnhreyfingar og sjónræna úrvinnslu. Aftur á móti ef þú ákveður að nota flokkakerfi, líkt og ég geri, þá getur þú haft þá flokka sem reynast þér erfiðastir og haft þar atriði sem þú getur þjálfað. Það sem vinnubókin hjálpaði mér samt með að átta mig á var að ég gat ekki sett mér markmið líkt og ég hafði gert hér áður fyrr. Það stendur í henni að eitt af mikilvægustu skrefunum sem þú getur tekið í þinni endurhæfingu er að setja sér raunhæf markmið. Fyrr í bókinni varstu búin að gera æfingu um að skrifa niður þau einkenni sem há þér hvað mest. Út frá þeim lista varstu síðan að vinna að því að setja þau yfir í markmið. Ef eitt einkenni þitt er til dæmis minniserfiðleikar þá er ekki gott að setja sér markmið sem er bara „að bæta minnið mitt.“ Þú þarft að búta það niður í skref og hugsa um hvaða skref þú getur gert til að „bæta minnið þitt.“ Út frá þessu dæmi er hægt að setja til dæmis þessi eftirfarandi markmið:

  • Æfa mig í minnisæfingum í Lumosity og/eða Peak appinu

    • Brýtur það markmið síðan niður í að ná til dæmis upp á ákveðið borð (level) í þessum minnisleik. Svo þegar þú nærð því markmiði þá setur þú nýtt markmið sem er að ná borðinu fyrir ofan það eða jafnvel lengra o.s.frv.

    • Markmið : Ná að komast í borð 4 í þessari minnisæfingu

    • Æfa mig í að muna einhverja lista af hlutum

    • Hægt er að finna fullt af þannig æfingum sem þú getur gert heima hjá þér. Til dæmis getur æfingin falist í því að skrifa niður á blað, kannski til að byrja með 5 hluti og reyna að leggja þá á minnið. Þú stillir síðan klukku sem hringir eftir 3-4 klukkutíma og þá reynir þú að nefna þessa 5 hluti. Svo getur þú sett klukku til að hringja næsta dag og reyna að muna þessa 5 hluti þá. Svo er auðvelt að flækja æfinguna með því bæta við fleiri orðum

    • Markmið : Ná að muna 5 hluti daginn eftir í 4 skipti

    • Þú getur einnig fengið einhvern til þess að taka upp á upptöku, þar sem taldir eru upp t.d. 10 hlutir. Þú kemur þér síðan fyrir í hljóðlátu umhverfi og hlustar á upptökuna. Gott er að hafa einhvern með sér í þessari æfingu. Þú telur annað hvort upp þessa hluti eða getur skrifað þá niður á blað og aðilinn sem er með þér segir síðan hvaða hluti þú náðir ekki. Æfingin er endurtekin, þú hlustar á upptökuna og þegar hún klárast þá nefnir þú eða skrifar hlutina. Þetta er gert í 4-5 skipti. Til þess að flækja enn þá meira þessa æfingu getur þú fjölgað orðum eða hlustað á upptöku, lagt hlutina á minnið, leyst síðan aðra þraut til dæmis 10 auðveld reikningsdæmi, þegar þú klárar síðan dæmi þá áttu að nefna eða skrifa niður hlutina sem þú heyrðir.

    • Markmið : Ná að nefna þessa 10 hluti í 4 skipti

  • Æfa mig í að muna hluta úr upplesnum texta/ hljóðbók

    • Það er hægt að finna auðveldar hlustunarskilningsæfingar á netinu þar sem þú getur æft þig að hlusta á upplesinn texta og svara síðan spurningum úr honum til að æfa hversu mikið þú manst af því sem þú varst að hlusta á.

    • Markmið : Ná að nefna 4-5 smáatriði sem ég man úr þessum texta

    • Þú getur einnig hlustað á hljóðbækur eða hljóðvörp og listað niður hluti sem þú manst úr því sem þú varst að hlusta á. Með því æfir þú tækni til að muna hluti sem þú hlustar á.

    • Markmið : Ná að nefna 8 hluti eða stuttar sögur sem ég get endursagt, ná þessu 4 sinnum

  • Muna ákveðna hluti, til dæmis hvað mig vantar úr matvörubúðinni

    • Þú getur byrjað á því að skrifa niður lista af því sem þig vantar. Síðan getur þú ákveðið leiðir sem henta þér best til að muna þessa hluti. T.d. hentar sumum að muna upphafsstafina á þeim hlutum. Segjum sem svo að hlutirnir væru: epli, bananar, mjólk, kornflex, kjúklingur og sódavatn. Þá væru upphafsstafirnir e,b,m,k,k & s. Út frá þeim getur þú svo myndað setningu eins og “Kolbrún Karlsdóttir má ekki borða sykur”. Þegar þú kemur svo í búðina rifjar þú upp setninguna og reynir að muna já m var mjólk, e voru epli o.s.frv.

    • Markmið : Ná að muna innkaupalistann í matvörubúðinni án þess að skrifa niður í 5 skipti

    • Önnur leið er að syngja hlutina eftir ákveðinni melódíu sem passar við.

    • Markmið : Ná að muna innkaupalistann með melódíu í 4 skipti

    • Enn önnur leið er að teikna niður þá hluti. Þessi leið kom ótrúlega sterkt inn hjá mér því ég var ennþá með ótrúlega gott sjónrænt minni eftir slysið en átti ótrúlega erfitt með annars konar minni. 

    • Markmið : Ná að muna innkaupalistann með því vera búin að teikna vörurnar niður og muna í 4 skipti

  • Síðan getur þú sett fleiri og fleiri undirmarkmið til að vinna að stóra markmiðinu sem í þessu tilfelli er að bæta minnið þitt.

Markmiðssetningin mín sem ég byrjaði á 8 mánuðum eftir slysið, hefur ekki einungis hjálpað mér með að reyna að endurheimta fyrrum skipulagshæfileika mína heldur hefur hún einnig hjálpað mér mjög mikið á andlega sviðinu. Ég var alltaf að bera allt það sem
ég gat gert við það hvernig ég var fyrir slysið. Ég gat farið í bíó án þess að þurfa að vera með eyrnatappa, hljóðeinangrandi heyrnartól
og dökk sólgleraugu. Ég gat verið í fjölmenni án þess að fá hausverki, ég gat verið í hvaða birtustigi sem er án þess að fá hausverk og þurfa að draga upp dökku sólgleraugun mín, ég gat munað glósurnar mínar ótrúlega fljótt o.s.frv. Það sem ég áttaði mig á, var að það
er ekki raunhæft að bera mig saman við mig fyrir slysið. Eina sem þú getur í raun og verið borið þig saman við án þess að draga þig niður, er að bera þig saman við þig sjálfa/n strax eftir slysið. Um leið og ég byrjaði að gera það, fór ég að geta séð árangur á ýmsum sviðum. Eftir að ég fór síðan að skrifa niður, prenta út öll markmiðin mín og hengja upp á vegg, þá fór ég að sjá meiri og meiri sjáanlegan árangur með því að tékka við hluti sem ég var núna farin að geta gert. Ég ákvað þá einnig að setja upp lista af markmiðs-verðlaunum, ég setti þá til dæmis niður ákveðin verðlaun ef ég myndi ná öllum sjónþjálfunarmarkmiðunum mínum. Með því að hafa markmiðsverðlaun þá var eitthvað aðeins meira sem var að toga mig í þá átt að reyna enn meira að ná markmiðunum mínum, því ég þurfti pínu aukinn drifkraft til að halda mér á réttu striki. Í dag held ég mig við að setja mér ný markmið og þegar ég klára að tékka
við allt á blaðinu þá geymi ég blaðið í möppu sem ég á og kíki í hana þegar mér líður illa til að sjá að ég er að ná árangri þó hann
virðist ekki vera mikill. Þá eru það stór stökk frá þeim stað sem ég var á strax eftir slysið.

Hér að neðan getur þú séð hvernig ég kýs að stilla upp mínum markmiðum sem ég hengi síðan upp á vegg.