Mikilvægi þess að peppa

pepp gaur-01 (1).jpg
 

Að vera með eftirheilahristingsheilkenni er alveg gríðarlega krefjandi verkefni sem fer yfir á líkamleg, vitsmunaleg og tilfinningaleg svið. Þetta ferli tekur ótrúlega langan tíma og það er oft mjög erfitt að sjá framfarir því þær koma mjög hægt. Þegar líður á ferlið og einstaklingur með eftirheilahristings-heilkenni er farinn að finna fyrir framförum og fær meiri von um að þetta fari nú allt að koma, koma alltaf bakslög sem eru alveg ótrúlega svekkjandi og bara hreint út sagt ömurleg. Því lengra sem einstaklingurinn er kominn á bataveginum, því erfiðara verður að takast á við bakslög. Á stundum sem bakslögin koma hellast neikvæðar hugsanir yfir okkur, vonleysi um að við munum nokkurn tímann geta starfað aftur eðlilega. Þessu fylgja erfið höfuð-verkjaköst, orkubankinn okkar tæmist gjörsamlega og jafnvel auðveldustu verkefni sem við gerum geta skilið okkur eftir örmagna og aukið á önnur einkenni. Satt að segja eru bakslögin alveg ömurleg og maður dettur bara ofan í svarta holu þar sem neikvæðni, vonleysi og verkir eru yfirgnæfandi. Bakslögin geta verið stutt en sum geta staðið í nokkrar vikur og það tekur mjög á andlegu hliðina.

Því vildi ég koma inn á það hvað það er mikilvægt, sérstaklega á stundum þegar einstaklingurinn er að takast á við bakslag að peppa /hvetja /hressa einstaklinginn við. Ég til að mynda fékk eitt alveg ömurlegt bakslag fyrir stuttu síðan sem stóð nánast í tvær vikur og ég var bara gjörsamlega búin
á því, átti í miklum erfiðleikum með að reyna að breyta neikvæðum hugsunum mínum yfir í góðar hugsanir. Ég fékk sterka vonleysistilfinningu  og orkan mín var alveg gjörsamlega tæmd og eiginlega bara komin í mínus. Þegar á þessu bakslagi stóð fór ég í sjúkraþjálfun rétt eins og venjulega. Sjúkraþjálfarinn minn sá hvað ég var tóm að innan og hvað mér leið illa þannig að hún tók hluta af tímanum bara í að peppa mig alveg gríðarlega mikið, hughreysta mig og hrósa mér fyrir hluti sem ég hef verið að standa mig vel í. Mér leið svo miklu betur eftir á. Hugsanir mínar urðu jákvæðari
og ég sætti mig við það að á svona stundum þurfi ég að forgangsraða öðrum hlutum og ekki að vera svekkja mig á því að ég geti ekki fylgt hefðbundinni rútínu sem ég er komin í. 

Eftir að þessu bakslagi mínu lauk, fór ég mikið að pæla í hvað ég þurfti nauðsynlega á svona peppi að halda og þá sérstaklega þegar ég á mín ömurlegu bakslög. Ferlið okkar er aldrei bein leið upp á við, það eru alltaf gríðarlega mörg bakslög og það gerir ferlið svo gríðarlega átakanlegt. Því vildi ég minnast alveg sérstaklega á það hvað það getur verið mikilvægt að hrósa og peppa einstaklingnum sem er að takast á við þetta átakanlega ferli. Ég setti upp nokkra punkta yfir þá hluti sem þú gætir hrósað fyrir:

  • Minna þau á þær framfarir sem þau hafa náð

  • Segja þeim hvað þér finnst þau vera gríðarlega sterk fyrir að höndla þetta átakanlega verkefni eins og meistari 

  • Gefa þeim hrós

  • Segja að þér finnist aðdáunarvert að sjá þau tækla þetta verkefni

  • Hvað sem þér dettur í hug sem gæti peppað manneskjuna

Annars er það algjörlega ykkar val hvernig þið viljið peppa eða hrósa þeim. Eitt pepp eða hrós getur hjálpað einstaklingum sem eru með eftirheila-hristingsheilkenni alveg gríðarlega mikið. Að peppa eða hrósa getur sýnt alveg ótrúlega mikinn stuðning og ekki síður skilning. Því mæli ég alveg eindregið með því að peppa og hrósa einstaklingnum með eftirheilahristings-heilkenni bara eins mikið og þú getur því að það er í raun það eina sem getur hjálpað þeim í gegnum bakslög og slæm tímabil. Í flestum tilfellum er ekkert sem aðstandendur geta gert til að lina þjáningar einstaklingsins í bakslögum fyrir utan kannski að sækja kælipoka fyrir þá, koma með vatnsglas eða þannig hluti. Aðstandendur vilja reyna gera hvað sem er til að láta einstaklingunum líða betur en það er svo lítið sem þau geta gert nema þá bara að reyna að peppa eða hrósa þeim til að reyna að byggja upp jákvæðar hugsanir en ekki neikvæðar og forða frá hugsunum um vonleysi.