HVERNIG ER HÆGT AÐ HJÁLPA?

 
Hvað er eftirheilahristingsheilkenni.jpg

halda samskiptuM

Það er erfiðara fyrir okkur sem erum með heilaáverka að eiga frumkvæði að því að halda samskiptum við vini og ættingja. Það getur líka verið að maður tengi slæman höfuðverk við það að hitta fólk og því forðist maður þær aðstæður

senda skilaboð

Einungis það að fá skilaboð með sms eða snapchat felur í sér ótrúlega mikinn stuðning. Það er nefnilega ekki bara heimsókn sem felur í sér stuðning heldur ýmiss konar samskipti sem sýna og fela í sér að þú ert að hugsa til viðkomandi einstaklings. Þú gætir boðist til að hitta einstaklinginn, hjálpa til við einhver heimilisstörf, koma með einhvern mat eða snarl (passaðu þig bara á því vera ekki of lengi í heimsókn), koma í stutta heimsókn 15-20 mínútur, bara til að spjalla um hluti og koma til að faðma einstaklinginn. Allt svona getur gefið einstaklingnum vellíðan sem kemur að svo góðum notum þegar honum líður illa mestan hluta dagsins.

Einnig er hægt að skrifa hjartnæm skilaboð sem gefur henni/honum auka „boozt“ inn
í daginn og jafnvel einhverja daga á eftir. Oftar en ekki koma neikvæðar hugsanir yfir daginn hjá okkur því við erum stöðugt minnt á að við náum ekki að gera einhverjar athafnir, eða fáum slæm einkenni og okkur líður illa.

símtöL

Stutt eða löng símtöl geta gert gæfumuninn. Það dregur athyglina að því sem verið er
að tala um í staðinn fyrir að þau hugsi um t.d. slæmt verkjakast sem þau fengu fyrr um daginn. Það styttir stundir hjá þeim og getur bætt andlegu líðanina mikið þó símtalið standi ekki nema bara í stutta stund.

Það að fólk hringi eða sendi skilaboð gefur þeim skilaboð um að aðstandendur þeirra séu ekki að gleyma þeim eða sé alveg sama um þau. Fólk með eftirheilahristingsheilkenni á það oft til að einangra sig félagslega og því getur verið ótrúlega gott að fá símtal. Nokkur símtöl geta verið mestu félagslegu samskiptin þeirra í vikunni, jafnvel mánuðinum.

hittingaR

Það þarf að sýna aukna aðgát þegar kemur að hittingum.

Eins og fram hefur komið, getur frumkvæði að hlutum raskast hjá einstaklingum með eftirheilahristingsheilkenni og eiga þeir því erfiðara með að eiga frumkvæði að hittingum. Því væri frábært ef þú tækir þann bolta að eiga frumkvæði að hittingum.

Það sem þarf þó að passa sig á, er að ef þið eruð búin að ákveða að hittast á einhverjum tilteknum tíma og einstaklingurinn ákveður að hætta við af einhverjum ástæðum, þá skaltu reyna að sýna eins mikinn skilning og þú getur. Ekki segja t.d. „Ég tók þessi plön fram yfir önnur“, „Af hverju ertu að fresta þessum plönum“ eða eitthvað sem lætur einstaklinginn fá samviskubit yfir því að hafa frestað þessum plönum. Það er mikilvægt að hafa í huga að viðkomandi einstaklingur þarf að hugsa hverju sinni hvað það er sem hann treystir sér í og þá getur dagsformið verið breytilegt. Stundum á einstaklingurinn slæma daga og þá treystir hann sér kannski ekki í hittinginn sem hafði verið ákveðinn.
Ef hann hefur til dæmis fengið slæmt höfuðverkjakast fyrr um daginn eða það var matarboð fyrir tveimur dögum þar sem öll orkan kláraðist og meira til, þá getur verið
að þau treysta sér ekki út af því þau eru slæm (mögulega í bakslagsástandi). Það getur einnig spilað inn í að þessir einstaklingar eru farnir að forðast aðstæður sem valda þeim versnandi einkennum, t.d. auknum höfuðverk. Ef þú hefur grun um að það sé ástæðan þá myndi ég hafa samband við nánasta aðstandanda og ræða við hann, sem gæti þá mögulega talað um þetta við einstaklinginn. Maður má nefnilega ekki forðast aðstæður sem gætu aukið einkennin því ef maður gerir það endalaust þá verður enginn bati. Það er einnig mjög gott að fá aðstoð við að tala um þetta málefni hjá sálfræðingi eða einhverjum sem þú treystir betur til þess.

Hafðu á bak við eyrað að einstaklingurinn getur ekki verið eins lengi í hittingnum og áður. Hittingur er ekki erfitt eða krefjandi verkefni fyrir heilbrigðan einstakling en hann reynir samt á ótrúlega marga hluti. Hann reynir t.d. á athygli, einbeitingu, það þarf, að sía út annað áreiti eins og ljós, hljóð og annað og einstaklingurinn hefur takmarkaða orku yfir daginn. Ef einstaklingur ætlar í t.d. hitting eða matarboð þá þurfa þeir að takmarka athafnir þann dag og jafnvel daginn áður til þess að geta verið í sem bestu ástandi. Þó geta einkenni samt komið þó þú sért búin að reyna að ráðstafa þinni orku.